Eru börn öryrkja dæmd til fátæktar?

Við erum aðeins einu slysi frá því að verða öryrkjar. Þess vegna ætti engum að standa á sama um það hvernig farið er með þennan þjóðfélagshóp.

Einstæð móðir var nær dauða en lífi fyrir nokkrum árum eftir slys og er öryrki í dag. Þrátt fyrir alla baráttuna gætir hún þess að vera börnum sínum innan handar með það sem þau vanhagar um. Nú er hún tekjutengd inn á barnið sitt þar sem hún hundskaðist ekki til að henda því út á 18 ára afmælisdaginn. Skiptir engu þó hún vilji veita barninu sínu húsaskjól á meðan það klárar skólann. Allar tekjur sem barnið vinnur sér inn í sumarleyfinu svo það geti staðið undir sér yfir skólatímann reiknast á móðurina. Fyrir utan það að hún fær aðeins rétt rúmlega 100 þúsund í vasann á mánuði þá má ekki gleyma því að öryrkjar þurfa að leita meira til lækna og sérfræðinga af ýmsum toga. Það kostar sitt. Hvort sem þú ert öryrki eða ekki. Hvers á barnið að gjalda? Húsaleiga, kaup á innbúi o.fl. myndi kosta það að allt sem tengist menntun verður að bíða, jafnvel út í hið óendanlega.

Önnur kona, sem er einnig öryrki, ákvað að prófa að vinna í 2 vikur til að sjá hvernig líkaminn tæki því. Eftir að skatturinn hafði tekið sitt og Tryggingastofnun sitt sat hún eftir með mínustölu. Það er nákvæmlega engin hvatning til að fara út á vinnumarkaðinn eða reyna að koma sér á framfæri með öðrum leiðum. Síðan vogar ríkisstjórnin að auglýsa herör gegn svartri atvinnustarfsemi. Á meðan ástandið er svona eiga öryrkjar ekki annars úrkosti en að vinna svart þar til þeir hafa fulla vinnugetu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband