1.10.2009 | 01:12
Nýtt upphaf – það sem einstaklingar geta komið til leiðar
Þeir sem karpa sem mest um að það þurfi að kjósa sem fyrst - ég er með spurningu til ykkar. Hvað viljið þið fá í staðinn? Ef þið ætlið að benda á vandamál þá ættuð þið að eyða kröftum í að leita að lausn áður en lagt er í nýjar kosningar. Við veljum sama fólkið til að halda um stjórnartaumana aftur og aftur. Síðan situr almúginn á kaffistofum þar sem fram koma prýðistillögur og þessar raddir virðast ekki ná eyrum hins háa Alþingis. Fólk sem vill ekki bendla sig við flokka.
Við erum svo óþolinmóð. Gerum okkur ekki alveg grein fyrir því hve hægt hjólin snúast í skrifræðinu. Þegar þarf að beina heilu samfélagi í aðra átt tekur það mun lengri tíma en fyrir þig sem einstakling. Ég vil ekki sjá sama fólkið og kom okkur í þessa vitleysu í áhrifamestu stöðunum, en viðurkenni þó að vitneskja þeirra er nauðsynleg innan stjórnkerfisins. Sumt fólk hefur meira persónufylgi en aðrir, algerlega óháð því hvaða flokki viðkomandi tilheyrir.
Í fyrstu 3 bloggunum mínum kem ég með hugmyndir um grunn að nýju stjórnskipulagi. Ekkert stjórnkerfi er fullkomið og það þarf að útfæra hugmyndina mun betur til að þetta verði raunverulegur möguleiki. Allar tillögur eru velkomnar, endilega láttu í þér heyra.
Sumir halda því fram að þessi hugmynd sé dæmd til að mistakast, að hópur af sundurleitu fólki muni ekki koma neinu út af borðinu og í framkvæmd. Ein af leiðunum til að móta stefnu felst í kosningaferlinu. Heimasíðan sem þið getið lesið um í fyrstu bloggunum gæti sýnt hverjum af hinum frambjóðendunum líst vel á kynninguna á viðkomandi frambjóðanda. Þeir sem hafa metnað í að bjóða sig fram hljóta að hafa eitthvað til málanna að leggja, hver á sínum sviðum.
Þingmenn reyna að fá sæti í þeim nefndum sem þeir hafa mestan áhuga á, en ákveðinn hluti ætti að vera með, á móti og hlutlaus í hverri nefnd. Mismunandi skoðanir eru teknar til greina og leitast við að ná sátt í hverju máli. Ef einhver vill skila séráliti þá er það einstaklingur sem gerir það en ekki flokkur. Auðvitað þarf að útfæra þetta betur, en þessi leið er kannski ekki svo galin. Við byggjum á góðum grunni, reynum bara að hreinsa í burtu það sem viðheldur spillingu. Fyrsta Alþingi í heiminum ætti jú að sýna fordæmi, en ekki öfugt.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.