ESB og AGS


Að mínu viti væri nær að hætta að henda peningum í ESB og gera sem mest úr því að halda fjármagni inni í landinu. Setja heimilin og atvinnulífið í forgang. Að ekki sé minnst á löggæslu og háskóla svo eitthvað sé nefnt. Við höfum svo miklu að tapa ef við göngum í ESB. Ég er ansi hrædd um að græðgin muni ráða för og Ísland verði blóðmjólkað til að sinna þurfandi ESB-löndum og stjórnendum þeirra.

Hreina vatnið okkar verður í höndum stjórnvalda sem hafa aldrei komið til Íslands. Það á að útrýma íslenskunni, máli sem mér þykir mjög vænt um og reyni að hlúa að eftir bestu getu. Hvaða skilning hafa menn sem búa við miðjarðarhafshita á þörfum fólks sem býr á köldu skeri lengst úti í rassgati. Tala nú ekki um ef þessir íbúar eiga ekki bót fyrir boruna á sér. Það hrjáir ekki feita karla með gullhringi og konur sem kaupa sér kjóla á hálfa milljón.

Erlend fyrirtæki hafa nú þegar áhuga á Íslandi, við þurftum ekki að vera í ESB til þess. Kuldinn er frábær fyrir hugbúnaðarfyrirtæki og við eigum mikið af óræktuðu landi. Með nýrri tækni og hlýnandi loftslagi getum við sáð fræjum í stærri landsvæði og lifað á eigin framleiðslu. Ef vel hefur gengið hjá Sveini Jónssyni, sjá http://www.natturan.is/frettir/2526/ má leiða að því líkum að við getum sjálf búið til pappír, fatnað og jafnvel efni sem er sterkara en stál úr íslenskum hampi. Þess má geta að það var búinn til bíll sem var algerlega úr hampi og gekk meira að segja fyrir hampolíu. Aðalmálið er bara að þora að koma með hugmyndir og láta slag standa, hverjir sem fordómarnir kunna að vera.

Við erum á grænni grein ef við leyfum okkur að sjá það. Við búum ekki í moldarkofum og erum þekkingarþjóðfélag – langflestir Íslendingar komast á internetið. Við erum ekki eins illa stödd og margir vilja láta. ESB og AGS eru ekki að reyna að hjálpa okkur, fyrir þeim erum við vænn biti og þessar skammstafanir munu gleypa okkur ef við leyfum það. Nú þarf að snúa vörn í sókn, taka leikhlé til að hlúa að þeim særðu og ákveða næstu skref. Þetta Icesave mál á að fara dómstólaleiðina og við borgum ekki krónu fyrr en úrskurður liggur fyrir PUNKTUR. Kötturinn og músin sem náði í holuna sína. Alþingismenn geta hætt að hlusta á kvabbið í ESB og AGS um að koma aftur út að leika.

Á meðan málið fer sína leið í dómskerfinu höfum við umhugsunarfrest, ráðrúm til að stokka upp í kerfinu. Byltingar þurfa ekki að vera blóðugar og sem viti bornir einstaklingar eigum við að geta rætt málin umbúðalaust. Ein hugmynd gæti verið að lýsa yfir sjálfstæði Íslands – friðland sem tekur ekki afstöðu til stríðsreksturs þar sem við höfum engan her. Leggja niður allt sem heitir stjórnmálaflokkar og gefa eignir þeirra til ríkisins – nýtt stjórnkerfi t.d. í líkingu við hugmyndina í fyrstu 3 bloggunum mínum. Gefa ungum listamönnum tækifæri á að skreyta byggingar sem þarfnast málningarvinnu – liður í að útrýma veggjakroti. Sjá tækifæri í vandamálum og stökkva á það sem við getum gert hér og nú til að fleyta okkur áfram. Prófa eitthvað nýtt – það gamla var greinilega ekki að virka og ég sé ekki betur en flest ESB lönd eigi við vandamál að etja. Lausnin liggur hjá okkur sjálfum, við þurfum bara að miðla málum þar til flestir geta verið sáttir við niðurstöðuna.


mbl.is Efnahagsáætlun Íslands endurskoðuð í næstu viku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband