Mér er spurn

Mér finnst atkvæðið mitt ekki vera að skila sér í dag. Ég hef skipt um skoðun á þeim einstaklingum sem nú stjórna. Fólkið sem situr á Alþingi er að vinna fyrir alla sem tilheyra hinni íslensku þjóð, ekki satt? Því ætti að vera sjálfsagt að ég geti komið með spurningar og athugasemdir áður en frumvörp verða að lögum. Mig langar að sjá heimasíðu þar sem íslendingar geta skráð sig inn á með aðgangsorði og lykli líkt og í heimabanka. Þar mætti t.d. skoða frumvörp sem hafa verið lögð fram í þinginu síðustu 10 daga, skrifa athugasemdir og kjósa eftir sinni sannfæringu. Alþingi ætti að hafa þetta til hliðsjónar þegar farið er yfir málin. Þetta væri rödd íslenskra ríkisborgara sem hafa skoðun á hlutunum og það er allt í lagi að skipta um skoðun eftir því sem nýjar upplýsingar berast.

Okkur vantar að vita hvað gerðist hjá Fjármálaeftirlitinu á Íslandi og ekki síður í Bretlandi og Hollandi. Af hverju kom þessi staða upp og hvernig komum við í veg fyrir að þetta gerist aftur? Skemmst er að minnast Baugsmálsins, en rannsóknin á því máli tók mun lengri tíma en Alþingi gefur sér í að fara í saumana á bankahruninu. Það á bara að samþykkja Ice-Save og ganga í ESB án þess að velta þessu aðeins fyrir sér. Af hverju er verið að dæla peningum í fólk sem átti þátt í að setja þjóðina á hausinn? Af hverju er ekki búið að sækja neinn til saka? Hvar er skjaldborgin um heimilin?

Allt of margir þurfa að velja á milli þess að eiga þak yfir höfuðið eða eiga mat út mánuðinn. Þetta fólk er ekki að spá í hvað gerist árið 2012. Því vantar hjálp ekki seinna en strax. Allt tal um ESB, Ice-Save og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn má bíða á meðan fólkið í landinu þarfnast okkar. Hvernig komumst við af ef hálf þjóðin liggur í svínaflensu? Hverjir eru að spá í þessu? Í hvað eru peningarnir að fara?

Hvaða máli skiptir hvernig við lítum út í augum annarra ef stoðirnar innra með okkur er að bresta? Af hungri og vosbúð! Af því að brotabrot af þjóðinni ákvað að fara á fyllerí og skella skollaeyrum við almannaheill. Með ESB stjörnur í augunum. Hvað höfum við að vinna við að ganga í ESB? Það fyrsta sem einum datt í hug að segja var „ódýrari kjúklingar“. Langar okkur að fá gin og klaufaveiki inn í landið? Ódýrt vinnuafl? Hvað ef íslendingum líkar ekki fyrirætlanir ESB með landið okkar?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband