Þjóðin ræður

Ég ætla ekki að sitja hér og þykjast vera alvitur um eitt eða neitt. En setjum sem svo að þjóðin kysi þessa nýju umgjörð sem ég hef sett fram í mjög grófum dráttum. Tilraunaverkefni í 4 ár, hverju höfum við að tapa? Í fyrsta lagi eru svona kosningar miklu ódýrari og áreitið vegna auglýsinga er ekkert. Allir fá sínar 8 mínútur sem fólk getur spilað eins og það vill. Þeir sem fá meirihluta atkvæða og standa sig í æfingabúðum fá starfið. Ráðherrarnir væru hæft fólk sem hafa starfað á sviði sem snertir ráðherrastólinn hvað mest. Þingmennirnir skoða öll mál áður en frumvörp eru lögð fram. Fyrir utan þrískiptingu valdsins og fjölmiðla er nú komin heimasíða fyrir fólk sem vill segja sína skoðun, koma með tillögur og kjósa um frumvörp líðandi stundar.

Sumir munu segja að þetta muni aðeins skapa glundroða þar sem engin sameiginleg stefna er höfð í fyrirrúmi. Ég er ekki viss um að það sé rétt og við munum ekki sjá það nema prófa, þó ekki sé nema eitt kjörtímabil. Sjá hvað gerist ef við færum valdið í hendurnar á þjóðinni. Engin innantóm kosningaloforð. Tekist er á við málefni sem brenna á þjóðinni hér og nú. Ég er ekki viss um að fólkið sem situr á Alþingi núna sjái út fyrir veggina. Alla sem missa húsin sín í hendurnar á bönkunum, landflóttann og þreytuna á seinaganginum. Er þetta kannski ekki rödd fólksins?

Annað sem nýja kerfið býður upp á er að spilling mun ekki líðast. Um leið og eitthvað gerist munu rísa háar raddir og umræðan ratar beint inn á Alþingi. Ekki bíða þar til þetta er gleymt og grafið undir vinagreiðum og fyrirgreiðslum. Þetta kerfi mun kippa fótunum undan mörgum sem njóta góðs af að þekkja mann sem þekkir mann. Með dugnaði og eljusemi komast menn þangað sem þeir eiga skilið. Á það kannski ekki að vera svoleiðis? Viljum við búa við það sem við þekkjum? Er þetta að virka?

Í raun er þetta ekki svo mikil breyting. Það eina sem gerist er að flokkarnir eru teknir úr umferð og hver og einn vinnur fyrir sínu sæti. Alþingismenn kjósa eftir eigin sannfæringu, enda getur stjórnin ekki sprungið yfir einhverju málefni. Ef þjóðin er ósammála munu fréttamenn leita svara við ástæðunni þar sem alþingismenn hafa jú aðgang að vilja fólksins áður en kosið er um frumvarp. Eftir fjögur ár er valið endurskoðað, sumir sitja lengur og aðrir finna sér annað starf eftir kosningar. Er þetta svo flókið eða er fólk bara hrætt við breytingar á lýðræðishugtakinu?

Lýðræði, einræði... það skiptir ekki máli hvaða stjórnarfyrirkomulag er valið. Kerfin eru meingölluð.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband