Færsluflokkur: Bloggar

Úti er ævintýri

Ástandið fram að þessu minnir mig á gamalt ævintýri

Hans og Gréta eru almenningur, vonda nornin eru bankar og tryggingastofnanir sem fita okkur aðeins til að ná sér í vænan bita, faðirinn eru þeir ráðamenn sem komu okkur í þessa stöðu, til að þóknast stjúpunni sem hér gegnir hlutverki auðvaldsins.

Förum aðeins yfir þetta. Faðirinn fer með börnin sín út í skóg þar sem hann er nokkuð viss um að þau muni deyja drottni sínum. Vonda nornin hugsar sér gott til glóðarinnar og lokkar börnin til sín með því að bjóða þeim það sem þau girnast. Bara ekki minnast á vextina. Við erum ennþá fangar. Við þurfum að henda norninni í eigin eld og tala yfir hausamótunum á föður okkar. Áður en stjúpan nær að rýja föður okkar, arfleið okkar, inn að skinni og láta sig hverfa með allt saman.

Alþjóða gjaldeyrissjóðurinn og ESB vilja auðlindirnar okkar. Við verðum að halda utan um þær áður en þær verða kreistar til síðasta blóðdropa og ekkert skilið eftir nema sviðin jörð. Hefur ríkisstjórnin skoðað hvernig önnur lönd hafa orðið úti eftir samskipti sín við fjármálalögguna? Mig langar ekki að sjá Ísland í þessum sporum og er viss um að ef við tökum völdin í okkar hendur fáum við betri niðurstöðu. Af hverju er fjármálastefnan okkar mótuð í samstarfi við AGS?

Í staðinn fyrir að sækja svona fast í að fara eftir þeirra vilja ættum við að lýsa yfir sjálfstæði okkar. Við eigum okkur sjálf, viljum fá að rækta land og þjóð til að borga upp skuldirnar. Hugsa inn á við, hvers þarfnast hinn almenni Íslendingur? Við borgum Icesave eftir því sem við getum, lækkum skatta til að kaupmáttur haldist uppi og reynum að sýna heiðarleika í kerfi sem er gagnsætt.

Allt uppi á borðum - þannig hljómuðu kosningaloforðin - það er það sem meirihlutinn vill.

 


mbl.is Átti fund með Strauss-Kahn
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hættum þessu þunglyndi og gerum eitthvað

Fortíðin er í rósrauðum hillingum. Með árunum hafa þeir sem lifðu tímana tvenna misst starfsþrek og atorkusemi. Fyrir þeim var lífið betra í austurhluta Berlínar, ég efast ekki um það. Í þessari frétt endurspeglast hve langan tíma getur tekið að ná sér eftir áfall og rétta hlut þeirra sem minna mega sín. Tekjur þeirra sem búa í austurhlutanum eru 80% lægri 20 árum eftir að múrinn féll. Það er eitthvað stórkostlegt að þessari mynd. Hverjum er um að kenna? Bera ekki allir ábyrgð sem koma að ástandinu? Hefði mátt hraða þróuninni í austurhlutanum með meiri samvinnu?

Persónulega finnst mér margir vera of harðir í garð núverandi ríkisstjórnar þó ég sé ekki sammála öllu sem ráðamenn eru að gera. Verð bara að treysta því að fólkið sem ég kaus sé að gera sitt besta fyrir þjóðina miðað við þær upplýsingar sem það hefur úr að moða. Ráðamenn innan stjórnmálaflokka í stjórnarandstöðu eru ekki síður sekir um sinn hlut. Eftir áratuga stjórnarsetu sem leiddi landið í þrot þarf að veita þeim sem taka við svigrúm til að horfa á málin frá öðrum hliðum og breyta áherslum. Það er flókið og tímafrekt ferli.

Ég vil svo sannarlega ekki snúa aftur í það far sem var fyrir hrun, en við verðum að sýna þolinmæði. Ástandið lagast ekki á morgun. Hættum að benda á allt sem miður fer og komum með lausnir. Ef einstaklingar fara að sjá bjálkann í sínu eigin auga og byrja að reita illgresið þar sem þeir ná til í eigin bakgarði munu fleiri fylgja í kjölfarið og málin leysast af sjálfu sér. Allir geta komið auga á lausnir fyrir samfélagið og þá er um að gera að koma því á framfæri. Látum engan komast upp með að byggja ókleifan múr á milli Íslendinga byggðan á stjórnmálaflokkum. Við sitjum öll í sömu súpunni og færum fórnir til samfélagsins.


mbl.is Einn af hverjum sjö vill sjá Berlínarmúrinn rísa á ný
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skrifa undir og bæta svo við skilmálum???

Hvað ef við, sem einstaklingar, myndum skrifa undir samning og mæta mánuði seinna og vilja bæta einhverjum skilmálum við sem væru okkur í hag?

Það er fásinna að halda að það verði tekið gilt að samþykkja Icesave... en svo eru hérna nokkur atriði sem við viljum setja inn. Sorry, þið eruð búin að skrifa undir - okkur koma þessir skilmálar ekki við.

Það var skrifað undir í júní, með fyrirvara um samþykki Alþingis. Ef forsetinn samþykkir þetta líka þá er úti um okkur. Flestir sem ég hef talað við og hafa tök á vilja einfaldlega byrja nýtt líf í öðru landi. Bíða bara eftir að heyra hvað gerist næst. Sem þýðir að enn færri neyðast til að taka á sig þennan skuldahala sem nokkrir íslenskir einstaklingar skelltu á þjóðina áður en þeir flúðu reiðan almúgann.

Við getum haft áhrif með því að skrá okkur á www.kjosa.is og látið í okkur heyra fyrir framan Alþingi með kröfuspjöld og búsáhöld. Hver og einn á að bera ábyrgð á sínum skuldum og Alþingi væri hollast að koma með ráð til að losna við vextina sem sliga hinn almenna borgara, á borð við íbúðarlán og neysluskatta.

Öll verðum við að hafa þak yfir höfuðið, hafa í okkur og á út mánuðinn. Við eigum ekki að þurfa að velja... eða hvað. Er ríkisstjórnin vísvitandi að veikja krónuna til að neyða okkur til að taka upp evru? Er búið að lofa háttsettu fólki einhverjum sætum innan EES?


mbl.is Semja verði aftur um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eru börn öryrkja dæmd til fátæktar?

Við erum aðeins einu slysi frá því að verða öryrkjar. Þess vegna ætti engum að standa á sama um það hvernig farið er með þennan þjóðfélagshóp.

Einstæð móðir var nær dauða en lífi fyrir nokkrum árum eftir slys og er öryrki í dag. Þrátt fyrir alla baráttuna gætir hún þess að vera börnum sínum innan handar með það sem þau vanhagar um. Nú er hún tekjutengd inn á barnið sitt þar sem hún hundskaðist ekki til að henda því út á 18 ára afmælisdaginn. Skiptir engu þó hún vilji veita barninu sínu húsaskjól á meðan það klárar skólann. Allar tekjur sem barnið vinnur sér inn í sumarleyfinu svo það geti staðið undir sér yfir skólatímann reiknast á móðurina. Fyrir utan það að hún fær aðeins rétt rúmlega 100 þúsund í vasann á mánuði þá má ekki gleyma því að öryrkjar þurfa að leita meira til lækna og sérfræðinga af ýmsum toga. Það kostar sitt. Hvort sem þú ert öryrki eða ekki. Hvers á barnið að gjalda? Húsaleiga, kaup á innbúi o.fl. myndi kosta það að allt sem tengist menntun verður að bíða, jafnvel út í hið óendanlega.

Önnur kona, sem er einnig öryrki, ákvað að prófa að vinna í 2 vikur til að sjá hvernig líkaminn tæki því. Eftir að skatturinn hafði tekið sitt og Tryggingastofnun sitt sat hún eftir með mínustölu. Það er nákvæmlega engin hvatning til að fara út á vinnumarkaðinn eða reyna að koma sér á framfæri með öðrum leiðum. Síðan vogar ríkisstjórnin að auglýsa herör gegn svartri atvinnustarfsemi. Á meðan ástandið er svona eiga öryrkjar ekki annars úrkosti en að vinna svart þar til þeir hafa fulla vinnugetu.


Siðblinda á háu stigi

Ég ræddi við konu í gær sem var næstum því búin að missa húsið vegna þess að eiginmaðurinn fékk ekki launin sín greidd á tilsettum tíma. Starfsmönnunum var boðið í grill hjá yfirmönnunum fyrir skömmu, en þá áttu sumir ekki fyrir bensíni á bílinn. Fólkið var enn að bíða eftir laununum sínum síðast þegar ég vissi. Hverslags siðblinda er þetta? Hagur hvers fyrirtækis á að felast í að starfsmennirnir séu ánægðir. Þeir eiga að vera í fyrsta sæti þegar kemur að því að borga skuldir. Allt annað má bíða.

Það sama á við um þá sem stjórna heilli þjóð, í grundvallaratriðum má líta á ríkisbatteríið sem eitt stórt fyrirtæki. Í augnablikinu eru stjórnendurnir svo uppteknir af því að vera í útrás og gera vel við sig að þeir hugsa ekki um stoðir samfélagsins. Er enginn búinn að segja þeim að þetta er úrelt? Allir eru að hugsa inn á við. Fatahönnuðir, útskurðarmeistarar og annað handverksfólk sprettur fram úr ótrúlegustu skúmaskotum. Fullt af fólki er byrjað að versla inn jólagjafir svo að desember verði léttbær. Fleiri og fleiri taka afrit af kortafærslunum til að fylgjast með eyðslunni.

Við erum að gera okkar besta, hvað er ríkisstjórnin að gera?


Frí frá verslun

Mig langar að innleiða verslunarbann á frídegi verslunarmanna. Lífið á ekki að snúast um að versla. Hvernig stendur á því að einu aðilarnir sem taka sér ekki frí þennan dag eru verslunarmenn? Erum við virkilega svo gráðug að við getum ekki tekið frá einn dag til að sinna öðru? Gefa sér tíma til að vera í faðmi fólksins síns og gera hluti sem kosta ekkert. Draga fram spil, fara í hressandi göngutúr, upphugsa eitthvað nýtt sem allir geta tekið þátt í sér að kostnaðarlausu. Peningar skipta ekki máli þennan dag. Föst dagsetning sem hægt er að hlakka til og skipuleggja fyrirfram.

Það má gera ráð fyrir einhverjum undantekningum fyrir þá sem starfa ekki við verslun. Þetta gæti t.d. verið dagur fyrir götulistamenn sem taka við frjálsum framlögum. Framleiðendur gætu kynnt afurðir sínar með ókeypis sýnishornum eða öðru kynningarefni. Svo framarlega sem enginn selur neitt þennan dag. Allir eru sjálfboðaliðar og allt er ókeypis fyrir neytandann. Engin loforð um fríðindi ef fólk vinnur þennan dag, bara þakklæti og kannski matarboð. Mér finnst að fólk ætti að gera meira af því að gera öðrum greiða án þess að velta fyrir sér hvað það fái í staðinn. Ég veit að það gefur mér heilmikið.


Þjóðin ræður

Ég ætla ekki að sitja hér og þykjast vera alvitur um eitt eða neitt. En setjum sem svo að þjóðin kysi þessa nýju umgjörð sem ég hef sett fram í mjög grófum dráttum. Tilraunaverkefni í 4 ár, hverju höfum við að tapa? Í fyrsta lagi eru svona kosningar miklu ódýrari og áreitið vegna auglýsinga er ekkert. Allir fá sínar 8 mínútur sem fólk getur spilað eins og það vill. Þeir sem fá meirihluta atkvæða og standa sig í æfingabúðum fá starfið. Ráðherrarnir væru hæft fólk sem hafa starfað á sviði sem snertir ráðherrastólinn hvað mest. Þingmennirnir skoða öll mál áður en frumvörp eru lögð fram. Fyrir utan þrískiptingu valdsins og fjölmiðla er nú komin heimasíða fyrir fólk sem vill segja sína skoðun, koma með tillögur og kjósa um frumvörp líðandi stundar.

Sumir munu segja að þetta muni aðeins skapa glundroða þar sem engin sameiginleg stefna er höfð í fyrirrúmi. Ég er ekki viss um að það sé rétt og við munum ekki sjá það nema prófa, þó ekki sé nema eitt kjörtímabil. Sjá hvað gerist ef við færum valdið í hendurnar á þjóðinni. Engin innantóm kosningaloforð. Tekist er á við málefni sem brenna á þjóðinni hér og nú. Ég er ekki viss um að fólkið sem situr á Alþingi núna sjái út fyrir veggina. Alla sem missa húsin sín í hendurnar á bönkunum, landflóttann og þreytuna á seinaganginum. Er þetta kannski ekki rödd fólksins?

Annað sem nýja kerfið býður upp á er að spilling mun ekki líðast. Um leið og eitthvað gerist munu rísa háar raddir og umræðan ratar beint inn á Alþingi. Ekki bíða þar til þetta er gleymt og grafið undir vinagreiðum og fyrirgreiðslum. Þetta kerfi mun kippa fótunum undan mörgum sem njóta góðs af að þekkja mann sem þekkir mann. Með dugnaði og eljusemi komast menn þangað sem þeir eiga skilið. Á það kannski ekki að vera svoleiðis? Viljum við búa við það sem við þekkjum? Er þetta að virka?

Í raun er þetta ekki svo mikil breyting. Það eina sem gerist er að flokkarnir eru teknir úr umferð og hver og einn vinnur fyrir sínu sæti. Alþingismenn kjósa eftir eigin sannfæringu, enda getur stjórnin ekki sprungið yfir einhverju málefni. Ef þjóðin er ósammála munu fréttamenn leita svara við ástæðunni þar sem alþingismenn hafa jú aðgang að vilja fólksins áður en kosið er um frumvarp. Eftir fjögur ár er valið endurskoðað, sumir sitja lengur og aðrir finna sér annað starf eftir kosningar. Er þetta svo flókið eða er fólk bara hrætt við breytingar á lýðræðishugtakinu?

Lýðræði, einræði... það skiptir ekki máli hvaða stjórnarfyrirkomulag er valið. Kerfin eru meingölluð.


Nokkrar tillögur

Hvernig væri að setja upp nám fyrir atvinnulausa, öryrkja, aldraða og hvern sem vill styrkja sjálfsmynd sína? Áhugasviðspróf, líkamlegt, bóklegt, andlegt... nám sem tekur á mörgum þáttum sem miða að því að hver og einn láti ljós sitt skína. Niðurgreiða hópeflisnámskeið fyrir vinnuhópa og annað sem kætir mannskapinn. Hrista íslensku þjóðina saman með öllum tiltækum ráðum.

Vinnumiðlun sem ríkið borgaði fyrir í formi atvinnuleysisbóta í einn mánuð. Þ.e.a.s. þeir sem sækjast eftir vinnukrafti á vegum ríkisins þurfa ekki að greiða laun 1. mánuðinn miðað við eðlilegan vinnutíma, þar sem þau eru greidd úr atvinnutrygginasjóði. Þetta form hentar vel ungu fólki sem á eftir að velja sér starfsvettvang. Kjörið að leyfa því að prófa sem flest.Eftir mánuð kæmi viðkomandi í viðtal til að sjá hvort starfið hentaði og hvort yfirmaðurinn vildi ráða þennan einstakling í stöðuna. Kaup og kjör eru rædd að því loknu og fundi er slitið.

Til að ráða í stöður á Alþingi myndi ég biðja þá sem sækjast eftir stólum að kynna sig í gegnum sérstaka heimasíðu á 8 mínútum. Sjónrænt og lesendavænt. Þeir sem sækjast eftir ráðherrastól þurfa að tilgreina embættið, en fá ekki lengri tíma til að kynna sig. Það skiptir máli að Jóna og Gunnar bjóði sig fram í þingsæti, rétt eins og núverandi alþingismenn. Aðeins þeir sem hafa nægilegt vit á málum koma til greina sem ráðherra. Hægt er að kjósa með aðgangslykli líkt og í heimabanka að lokinni sýningu/lesningu (já , nei og tek ekki afstöðu). Leiðbeiningar fylgja öllum lyklum sem sóst er eftir svo allir ættu að geta kosið sem hafa kosningarétt.

Rannsakendur, fólk sem hefur reynslu úr heimi Alþingis, fjölmiðla, dómara og fræknustu kaffistofuhugsuðurnir taka við þeim sem fengu flest atkvæði í sérstökum æfingabúðum þar sem fylgst er með hvernig fólkið vinnur í hóp. Þar munu efstu menn sitja hver í sinni „ríkisstjórn“ og leika hlutverkið eftir krefjandi verkefnum og tímatakmörkunum í eina viku.

Þegar rýnihóparnir hafa lokið vinnu sinni velja rannsakendur 3 umsækjendur um hvern ráðherrastól sem hafa skarað fram úr. Sýnt verður frá vinnu þeirra í æfingabúðunum á internetinu og í sjónvarpinu. Fólk mætir á kjörstað til að kjósa í embætti ráðherra. Hæfustu þingmennirnir í æfingabúðunum fá sjálfkrafa sæti á hinu nýja Alþingi Íslendinga, enda hafa þeir sannað ágæti sitt.


Mér er spurn

Mér finnst atkvæðið mitt ekki vera að skila sér í dag. Ég hef skipt um skoðun á þeim einstaklingum sem nú stjórna. Fólkið sem situr á Alþingi er að vinna fyrir alla sem tilheyra hinni íslensku þjóð, ekki satt? Því ætti að vera sjálfsagt að ég geti komið með spurningar og athugasemdir áður en frumvörp verða að lögum. Mig langar að sjá heimasíðu þar sem íslendingar geta skráð sig inn á með aðgangsorði og lykli líkt og í heimabanka. Þar mætti t.d. skoða frumvörp sem hafa verið lögð fram í þinginu síðustu 10 daga, skrifa athugasemdir og kjósa eftir sinni sannfæringu. Alþingi ætti að hafa þetta til hliðsjónar þegar farið er yfir málin. Þetta væri rödd íslenskra ríkisborgara sem hafa skoðun á hlutunum og það er allt í lagi að skipta um skoðun eftir því sem nýjar upplýsingar berast.

Okkur vantar að vita hvað gerðist hjá Fjármálaeftirlitinu á Íslandi og ekki síður í Bretlandi og Hollandi. Af hverju kom þessi staða upp og hvernig komum við í veg fyrir að þetta gerist aftur? Skemmst er að minnast Baugsmálsins, en rannsóknin á því máli tók mun lengri tíma en Alþingi gefur sér í að fara í saumana á bankahruninu. Það á bara að samþykkja Ice-Save og ganga í ESB án þess að velta þessu aðeins fyrir sér. Af hverju er verið að dæla peningum í fólk sem átti þátt í að setja þjóðina á hausinn? Af hverju er ekki búið að sækja neinn til saka? Hvar er skjaldborgin um heimilin?

Allt of margir þurfa að velja á milli þess að eiga þak yfir höfuðið eða eiga mat út mánuðinn. Þetta fólk er ekki að spá í hvað gerist árið 2012. Því vantar hjálp ekki seinna en strax. Allt tal um ESB, Ice-Save og Alþjóða gjaldeyrissjóðinn má bíða á meðan fólkið í landinu þarfnast okkar. Hvernig komumst við af ef hálf þjóðin liggur í svínaflensu? Hverjir eru að spá í þessu? Í hvað eru peningarnir að fara?

Hvaða máli skiptir hvernig við lítum út í augum annarra ef stoðirnar innra með okkur er að bresta? Af hungri og vosbúð! Af því að brotabrot af þjóðinni ákvað að fara á fyllerí og skella skollaeyrum við almannaheill. Með ESB stjörnur í augunum. Hvað höfum við að vinna við að ganga í ESB? Það fyrsta sem einum datt í hug að segja var „ódýrari kjúklingar“. Langar okkur að fá gin og klaufaveiki inn í landið? Ódýrt vinnuafl? Hvað ef íslendingum líkar ekki fyrirætlanir ESB með landið okkar?


Andartak

Á þessum síðustu og verstu líður mér líkt og einum af Göllunum í sögunum um Ástrík og Steinrík. Ég trúi á sjálfstæði mitt og neita að láta undan árásum Rómverja. Þeir hafa allt að vinna og við öllu að tapa. Það er meira af hreinu vatni, mat og orku í þessu litla landi en á flestum stöðum á jarðríki. Líkt og Gallarnir er ég bjartsýn á að hafa þetta af og læt ekki undan baráttulaust. Þeir halda að þessi litla þjóð eigi við ofurefli að etja, það verði auðvelt að láta okkur lúta að þeirra vilja. En við sínum þeim í tvo heimana. Elskum friðinn, strjúkum kviðinn og stöndum upp fyrir sjálfstæði okkar.

Með hlýnandi veðurfari leita fiskarnir á kaldari slóðir við strendur Íslands og hugbúnaðarfyrirtæki líta hýru auga til okkar. Nýjar siglingaleiðir eru að opnast með bráðnun á Norður Íshafi og miklir möguleikar eru til þess að olía finnist við landið, ekki að það skipti höfuðmáli þegar annar orkugjafi tekur við af bensíni. Við erum fremst í flokki þegar kemur að jarðhitarannsóknum og það er næg orka í landinu til að sjá okkur farboða. Íslendingar eru kátastir með að það er loksins orðið nógu hlýtt til að spranga um á stuttbuxum yfir heitustu mánuðina og við eigum mikið af landi sem gaman er að skoða. Innlendir og erlendir ferðamenn njóta þess. Þegar ég er í útlöndum sakna ég ferskleikans að heiman. Af hverju ættum við að vera svartsýn um okkar hag í framtíðinni?

Alþingi Íslendinga er elsta þing í veröldinni, aðrir ættu að kappkosta við að fara að okkar fordæmi, ekki öfugt. Við ráðum fram úr þessu ef við fáum tíma og vinnum samkvæmt eigin sannfæringu. Það er ekkert athugavert við að fá lánaða dómgreind hjá hinum og þessum en það þarf ekki að vera lokaákvörðun. Allar leiðir sem hafa verið farnar innihalda kosti og galla og þannig mun það alltaf verða. Ég vil gera breytingar sem hafa aldrei verið prófað áður og trúi því að við komumst upp úr lægðinni með sameiginlegu átaki. Nýta okkur það að vera lítil og samhent þjóð í gjöfulu landi.

Við megum ekki gleyma að fólkið sem situr á Alþingi á margt sameiginlegt með þeim sem sitja úti í kuldanum. Við erum jú öll mannleg. Ég legg til að einhver fari í pontu á Alþingi og syngi Love me tender fyrir þingsalinn, síðan vil ég biðja hæstvirtan forseta um að gera hlé á þingstörfum til að þingmenn geti kynnt sér lagabálkinn sem við höfum útbúið í faðmi fólksins fyrir utan. Hann inniheldur lög eins og „ísland er land þitt“, „Hótel Jörð“, „Minning um mann“ og fleira viðeigandi.

Þetta verður kyrrðarstund algerlega óháð flokkum eða þjóðfélagsstöðu. Þessa söngstund  ríkir friður, líkt og þegar þjóðverjar héldu upp á jólin með bandamönnum í den. Engar áhyggjur í smá stund. Eini tilgangurinn er að njóta líðandi stundar. Margar hendur vinna létt verk og við þurfum að standa saman. Við getum unnið okkur út úr þessu ef við notum þá peninga sem eru í landinu til að hlúa að þeim heimamönnum sem hafa hugmyndir sem eru vænlegar til árangurs fyrir þjóðina.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband